Byrjað var að selja úr, sem stolið var úr úraverslun Franks Michelsen í síðasta mánuði, í gær. Samkvæmt upplýsingum frá versluninni hefur mikil ásókn verið í úrin en ekki var hægt að fá upp nákvæma tölu um hver mörg úr hafa verið seld.
Alls voru 49 úr endurheimt úr ráninu og eru þau nú til sölu hjá verslun Franks Michelsen en auk þess eru 10 úr af Tudor gerð til sölu á niðursettu verði þar sem þau urðu fyrir hnjaski er ræningjarnir létu greipar sópa í versluninni.
Um 40 Rolex úr eru til sölu, 17 Tudor úr og tvö Michelsen úr. Ódýrustu Rolex úrin voru á 775 þúsund krónur en dýrasta úrið sem enn er óselt er metið á 1,4 milljónir króna. Tudor úrin eru ódýrust á 344 þúsund krónur og það dýrasta á tæpa eina milljón króna.
Samkvæmt upplýsingum frá versluninni er veittur afsláttur af úrunum en mjög mismikill þar sem ástand þeirra er misgott.
Upprunalegt tjón Franks nemur ríflega 60 milljónum kr., þ.e. á úrum og innanstokksmunum.
Mennirnir þrír sem rændu verslunina þann 17. október komust úr landi með flugi til Danmerkur daginn eftir ránið. Hafa þeir verið eftirlýstir og alþjóðleg handtökuskipun gefin út.
Allt eru þetta pólskir ríkisborgarar á fertugsaldri og ekki talið að þeir hafi áður komið til landsins. Notuðust þeir við þrjá stolna bíla á flótta sínum frá versluninni.
Mennirnir heita Grzegorz Marcin Novak, 34 ára, Pawel Jerzy Podburaczynski, 36 ára, og Pawel Artur Tyminski, 33 ára.
Fjórði maðurinn sem tengdist ráninu var hins vegar enn á landinu og var sá handtekinn í lok október. Í kjölfarið fannst svo ránsfengurinn, sem maðurinn reyndist hafa geymt í bíl sínum. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald.