Stjórn Fjármálaeftirlitsins kom saman í dag og ræddi mál Gunnars Þ. Andersens, forstjóra FME, en í Kastljósi í gær kom fram hörð gagnrýni á ráðningu Gunnars í starf forstjóra vegna starfa hans fyrir aflandsfélög Landsbankans er hann vann hjá bankanum.
Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður FME, segir að ákveðið hafi verið á fundi stjórnar í dag að fá Andra Árnason, lögmann, sem vann á síðasta ári álit um hæfi Gunnars, til að rýna í það sem kom fram í Kastljósi í gærkvöldi, hvað sé nýtt í umfjöllun þáttarins og kynna það fyrir stjórn FME.
Eins var ákveðið að fá þriðja aðila, sem er óháður sérfræðingur, til þess að rýna í málið svo hægt sé að skoða það frekar.
Að sögn Aðalsteins er ekki kominn neinn tímarammi á það hvenær þessari vinnu ljúki en Fjármálaeftirlitið hefur sent fjölmiðlum álitsgerð Andra í kjölfar umfjöllunar Kastljóss Sjónvarpsins um mál Gunnars í gær.
Meginniðurstaða í álitsgerð Andra er að ekki sé talin sérstök ástæða til að draga í efa hæfi Gunnars nú til að gegna skyldum sem forstjóri stofnunarinnar.