Miklar og langar biðraðir mynduðust í nokkrum verslunum vínbúðanna í dag og virtist aðalásóknin vera í jólabjórinn. Líktist ástandið helst því sem er á Þorláksmessu og alveg ljóst að fólk ætlar ekki að koma að tómum jólabjórs-kofunum, eins og gerðist fyrir jól í fyrra.
„Það hafa verið raðir úti um alla búðina frá því um kl. 15.30 og þetta er búið að vera eins og á Þorláksmessu,“ segir Egill Jónasson, aðstoðarverslunarstjóri í Heiðrúnu. Hann segir helst sótt í jólabjórinn.
„Það voru margir sem komu í fyrra og urðu fyrir miklum vonbrigðum með að birgðirnar höfðu klárast þannig að við erum svona að tengja þetta við það,“ segir Egill.
Hann segist þó halda að framleiðendur hafi haft vaðið fyrir neðan sig og framleitt meira fyrir þessi jól. Eftirspurnin hafi reyndar farið langt fram úr væntingum. Til að mynda hafi selst ríflega tvö bretti af Jólakalda í dag, sem sé uppseldur í versluninni. Von sé á annarri sendingu eftir helgi.
Í vínbúðinni í Firðinum í Hafnarfirði var einnig margt um manninn og segir Ari Blöndal Eggertsson verslunarstjóri sömuleiðis mesta eftirspurn eftir jólabjórnum. „Hjá okkur eru Tuborg jólabjórinn og Jólakaldi búnir í bili en þeir koma aftur í næstu viku.“
Það er því ótímabært að örvænta.