Undirbúa þrjár smávirkjanir í Blöndu

Blöndulón á Auðkúluheiði.
Blöndulón á Auðkúluheiði. mbl.is/Einar Falur

Landsvirkjun vinnur nú að frumhönnun á þremur smávirkjunum í Blönduveitu sem ætlað er að nýta óvirkjað fall úr Blöndulóni niður í inntakslón virkjunarinnar, Gilsárlón. Kom þetta fram í svari Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra við munnlegri fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar alþingismanns á Alþingi á dögunum.

Gert er ráð fyrir að uppsett afl verði 28 megavött og er áætlað að samanlögð orkugeta verði um 180 gígavattstundir á ári. Virkjað fall er um 64 metrar úr Blöndulóni í Gilsárlón.

Fram kom hjá iðnaðarráðherra, sem leitaði upplýsinga hjá Landsvirkjun, að þrjár virkjanir hafa verið til skoðunar. Sú efsta er Kolkuvirkjun sem virkjar fallið úr Blöndulóni yfir í Þrístiklu og verður stöðvarhús hennar staðsett sunnan við Þrístiklu. Næsta er Fannlækjarvirkjun sem virkjar fallið frá Smalatjörn í Austara-Friðmundarvatn og verður stöðvarhúsið staðsett sunnan við vatnið. Sú þriðja er Gilsárvirkjun sem virkjar fallið frá Austara-Friðmundarvatni niður í Gilsárlón og verður stöðvarhúsið staðsett mitt á milli Gilsárlóns og Austara-Friðmundarvatns.

Á næsta ári áformar Landsvirkjun að halda áfram nauðsynlegum rannsóknum og verkfræðilegum undirbúningi auk vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Katrín sagði  mögulegt að hefja virkjunarframkvæmdir á seinni hluta árs 2013 og gangsetja þá virkjanirnar á seinni hluta árs 2016.

Miklir möguleikar í gömlu virkjununum

Katrín sagði að  fjölmargir kostir væru til að auka og bæta nýtingu á þeim virkjunum sem þegar eru til staðar. Nefndi hún, auk Blönduvirkjunar, stækkun Búrfellsvirkjunar sem hugsanlega gæti aukið orkugetu kerfisins um 208 gígavattstundir á ári. Einnig er verið að skoða aðra kosti sem aukið geta afl í kerfinu og má þar nefna að ef bætt yrði við einni vél við Sigöldustöð mætti fá þar um 50 megavött, sömuleiðis við Hrauneyjafossstöð, þar gæti ein vél gefið um 70 megavött.

Einnig benti hún á að ef álag á Sultartangavirkjun væri aukið gæti nýtingin aukist um 10 megavött. Víða í gömlu virkjununum er fjöldi tækifæra sem verið er að skoða og gætu verið góðir kostir.

Fyrirspyrjandinn, Einar K. Guðfinnsson, lagði áherslu á nýta þyrfti tímann vel á næsta ári til að vinna að undirbúningi umhverfismats.

Nefndi hann að framkvæmdinni fylgdu störf og umsvif í héraði og skapaði betri forsendur fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu á Norðurlandi vestra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka