Vilja draga úr samkeppni í tóbakssölu

Samkeppni er um sölu á tóbaki.
Samkeppni er um sölu á tóbaki. mbl/Golli

ÁTVR leggur til að tekið verði upp fast smásöluverð á tóbaki og tóbaksgjaldið hækkað um 7,5%. Fyrirtækið telur að núverandi fyrirkomulag stuðli að samkeppni og sé söluhvetjandi.

ÁTVR tekur þessa tillögu upp í umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem nú er til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd Alþingis.

Vakin er athygli á því að fast smásöluverð tóbaks sé komið í reglur Evrópusambandsins og hafi mörg ríki tekið það upp. Það sé aðallega gert af heilbrigðisástæðum. Opinber aðili, hér ÁTVR, taki að sér að gefa út og birta verðskrá sem allir smásalar þurfi að fylgja.

ÁTVR segir að núverandi fyrirkomulag, um lágmarksverð á tóbaki í smásölu, hafi leitt til þess að álagning hafi hækkað úr rúmum 16% í um 28%. Áætlar ÁTVR að hlutur smásala sé rúmlega tveir milljarðar, tvöfalt meira en var.

Leggur fyrirtækið til að smásöluálagning verði fastsett við 20%.

Nú hafi smásalar verulegan hag af því að selja tóbak. Það sé söluhvetjandi og andstætt heilbrigðismarkmiðum stjórnvalda.

Þegar sé farið að bera á samkeppni í tóbakssölu, þar sem smásalar lækki verð, til að draga til sín viðskiptavini.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert