Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur efna til uppboðs á 65 ára gamalli viskíflösku. Uppboðið er til styrktar fyrrverandi samstarfsmanni þeirra, Guðmundi Felix Grétarssyni, sem er að safna fyrir kostnaði við handaágræðslu.
Viskíflaskan var geymd á minjasafni Orkuveitunnar, að því er fram kemur í viðburði sem kynntur er á Facebook. Hún er nú dregin fram í þessum tilgangi.
Flaskan á sér skemmtilega sögu, því hún fannst á árinu 1994 í Nauthólsvík, á eins metra dýpi, þegar starfsmenn Vatnsveitu Reykjavíkur voru þar við vinnu sína. Hún er talin frá dögum hernámsliðsins og er því yfir 65 ára gömul.
Leitað er eftir tilboðum og þurfa þau að sendast á póstfangið: starfsmannafelag@or.is. Verða tilboðin birt daglega hér á Facebook-síðunni.
Tilboðsfrestur er til kl. 23.30, 30. nóvember og verður hæsta tilboði tekið.
Tekið er fram að engin ábyrgð er tekin á innihaldi flöskunnar en talið sennilegt að það sé áfengt.