Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi formaður stjórnar Leikfélags Akureyrar, telur ljóst að stjórn félagsins hafi þá þegar verið leynd upplýsingum um raunverulega fjárhagsstöðu félagsins. Kemur þetta fram á vef Vikudags.
Sigmundur Ernir lét af formennsku fyrir um ári. Hann segir ljóst að uppsetning á söngleiknum Rocky Horror hafi verið of stór biti fyrir leikfélagið á sínum tíma. „Það hlaust mikill kostnaður af því fresta sýningunni, sem kom til vegna eindreginna óska um að hefja starfsemi Hofs með glæsilegri sýningu af hálfu LA. Þar fyrir utan minnkuðu styrkir til félagsins, sem var fyrirséð en kostnaður jókst á sama tíma, sem ekki var hægt að spá fyrir um,“ segir Sigmundur. Þessi ósk hafi komið frá bæði Hofi og Akureyrarbæ.
Sigrún Björk Jakobsdóttir, sem tók við formennsku í LA af Sigmundi fyrir um ári, skaut föstum skotum að fyrrverandi stjórn félagsins í grein í Vikudegi í síðustu viku. Hún talaði m.a. um að undarlega hljótt hafi verið um ábyrgð fyrri stjórnar félagsins á þeim hremmingum sem nú ganga yfir félagið. Sigrún talaði um að helsta ástæða mikils tapreksturs LA á síðasta leikári hafi verið sýningin Rocky Horror sem byrjað var að sýna í september 2010.
Sigmundur segir að framlegð af sýningunni fyrir LA í Hofi, hafi verið allt of lítil. „Það kostaði okkur of mikið að setja sýninguna upp í Hofi, miðað við að hafa sett hana upp í Samkomuhúsinu. Það eru margir þættir sem gera það að verkum uppsetningin á verkinu reyndist leikfélaginu allt of kostnaðarsöm. Á hitt ber að líta að samfélagið allt á svæðinu græddi mikið á sýningunni og kannski hefur leikfélagið eitt tapað á henni.”
Sigmundur segir við Vikudag að í ljósi þess sem kom á daginn eftir að hann lét af formennsku, megi ljóst vera að jafnvel þegar á þeim tíma var stjórnin leynd lykilupplýsingum um raunverulega rekstrarstöðu félagsins. „Stjórnin var á þeim tíma ekki í aðstöðu, eða hafði forsendur til að rengja þær tölur sem hún fékk á sitt borð en hefði betur vantreyst þeim, fremur en treyst. Í því liggur ábyrgð fyrri stjórnar.“