Sr. Halldór Gunnarsson lýsti því yfir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að hann byði sig fram í embætti varaformanns flokksins. Ólöf Nordal, núverandi varaformaður, er einnig í framboði.
Hann sagðist bjóða sig fram vegna flokksins. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins verði að vera sjálfstæður og tilbúinn hverju sinni að takast á við þær skoðanir sem hann teldi réttar og fylgja honum eftir. Varaformaður ætti ekki alltaf að vera sammála formanni. Varaformaður eigi að geta messað um allt land til að flytja sjálfstæðisstefnuna.
„Ég er tilbúinn til að flytja þær messur," sagði Halldór og lagði áherslu á að framboð hans væri alvöru framboð.
Hann sagði að ef Hanna Birna verður kosin formaður myndi hann sætta sig við að falla fyrir Ólöfu í varaformannskjöri. „En ef Bjarni verður kosinn formaður veit ég, að honum er alveg lífsnauðsynlegt að hafa mig sem varaformann sér við hlið."