Handtökur í tengslum við skotárás

Lögreglan á vettvangi við bílaumboðið Ingvar Helgason.
Lögreglan á vettvangi við bílaumboðið Ingvar Helgason. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan handtók í nótt menn í tengslum við fyrirsát og skotárás á bifreið í Bryggjuhverfinu í Reykjavík í gærkvöldi. Engan sakaði í árásinni en verulegar skemmdir urðu á bifreið fórnarlambsins af völdum kúlnahríðarinnar.

Lögreglan lítur mál þetta mjög alvarlegum augum - jafnvel sé um tilraun til manndráps að ræða - en hún segist telja það tengjast fíkniefnaviðskiptum. Mun annar bíll árásarmannanna fundinn en mikil leit hefur verið gerð að þeim. Að sögn lögreglunnar er enn leitað að grunuðum í málinu.

Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur tekið þátt í rannsókn málsins í gærkvöldi og nótt ásamt miðlægri deild lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Á tímapunkti var öll tiltæk lögregla að vinna að málinu.

Líklegt þykir að setið hafi verið um manninn sem skotið var á. Hann var eltur á bíl sínum af tveimur öðrum bílum sem í voru grímuklæddir menn, vopnaðir haglabyssum.  Þeir náðu að króa manninn af við hringtorgið við bílaumboð Ingvars Helgasonar við gömlu Elliðarárbrúnna.

Þar skutu þeir á bílinn en maðurinn náði að komast undan og hringdi í Lögregluna og sagðist ætla að freista þess að komast niður á lögreglustöðina á Hverfisgötu, sem tókst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert