Í nýjum drögum að ályktun um utanríkismál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins segir, að gera skuli hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi málsgrein var ekki í upphaflegum drögum að tillögunni, sem lá fyrir fundinum.
Í kafla ályktunardraganna um Evrópusambandið segir, að Sjálfstæðisflokkurinn telji að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið og styðji því ekki aðildarviðræður ríkisstjórnarinnar.
„Samstarfinu við ESB er best viðhaldið og það eflt á grundvelli EES-samningsins. Sjálfstæðisflokkurinn varaði við því að hafnar yrðu aðildarviðræður við ESB án þess að ákvörðun um að óska eftir aðild væri tekin á grundvelli breiðrar samstöðu í samfélaginu og án þess að skýr samningsmarkmið lægju fyrir. Ekkert tillit var tekið til þeirra aðvarana og eru aðildarviðræðurnar nú í ógöngum á ábyrgð klofinnar ríkisstjórnar til málsins. Landsfundur ályktar að gera skuli hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu," segir í ályktuninni.