„Við verðum að umgangast Jökulsárlón með mikilli virðingu og um leið að bjóða ferðafólki upp á góðar aðstæður til að heimsækja staðinn og njóta hans,“ segir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðarbæjar. Deiliskipulag er í vinnslu og hugmyndir um að friðlýsa svæðið.
„Menn eru frekar óþreyjufullir að taka málin fastari tökum svo við eigum ekki á hættu að svæðið verði fyrir tjóni vegna aðgerðarleysis stjórnvalda, okkar og ríkisins,“ segir Hjalti Þór um niðurstöðu ráðstefnu um Jökulsárlón sem haldin var í Freysnesi.
Hugmyndir eru uppi um að friðlýsa þann hluta Breiðamerkursands og Jökulsárlóns sem úrskurðaður hefur verið þjóðlenda, með því að setja svæðið undir Vatnajökulsþjóðgarð. Hjalti segir að með því fengi það meira bakland.
Jafnframt er verið að ræða drög að nýju deiliskipulagi sem sveitarfélagið hefur unnið í samvinnu við landeigendur, þar sem tekið er á uppbyggingu og verndun. Segir Hjalti að gert sé ráð fyrir uppbyggingu á núverandi þjónustusvæði sem er á eignarlandi, í anda þess sem gert hefur verið og fyrirhugað er í Skaftafelli. Þá hafa einnig komið upp hugmyndir um byggingu hótels.
Tillögur að deiliskipulagi fara nú í formlegt skipulagsferli hjá sveitarfélaginu og kynningu meðal almennings.
Hjalti segir brýnast að hindra utanvegaakstur og komu upp aðstöðu til að beina göngufólki í ákveðinn farveg til að verja jökulöldurnar. Þurfti að fara fljótt í aðgerðir til þess.
Við gerum þetta allt unnið út frá því grundvallaratriði að staðurinn rísi áfram undir því merki að vera ein helsta táknmynd íslenskrar ferðaþjónustu.