Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á landsfundi flokksins í dag að vinstristjórnin væri að verða uppiskroppa með loforð til að svíkja. Þess vegna horfi þjóðin til Sjálfstæðisflokksins með von í brjósti.
„Okkar hlutverk er að láta þá von rætast," sagði Bjarni. Sagði hann að verkefnið framundan væri að vinna glæsilegan sigur í næstu alþingiskosningum.
Bjarni sagði, að það væri mesti heiður, sem nokkrum stjórnmálamanni á Íslandi getur hlotnast að vera formaður Sjálfstæðisflokksins. Sagðist hann vera stoltur af þeim mikla árangri, sem flokkurinn hefði náð að undanförnu en hann væri búinn að endurheimta fylgi sitt.
Hann sagðist ekki taka nokkuð mark á mælingu á trausti á stjórnarandstöðunni. „Ekki er ég í samstarfi við Hreyfinguna," sagði Bjarni. „Ekki er ég í samstarfi við Framsóknarflokkinn eða villingana sem hafa villst af leið. Eina mælingin sem ég tek mark á er þegar ég sé að við höfum endurheimt stöðu okkar. Við erum stærsta stjórnmálaaflið," sagði Bjarni.
Hann sagði að núverandi ríkisstjórn skildi ekki atvinnulífið og þess vegna gæti hún ekki nýtt tækifærin sem byðust. Árásir ríkisstjórnarinnar á atvinnulífið væru árásir á laun fólksins, á heilbrigðisþjónustuna, menntunina og allt það sem sjálfstæðismenn væru sammála um að skipti miklu máli fyrir velferð þjóðarinnar.
Bjarni sagði, að sjálfstæðismenn kynnu að kjósa á milli manna og það sundraði ekki flokkinn heldur styrkti vegna þess að bönd hugsjóna væru öllum ágreiningi yfirsterkari.
Bjarni talaði í ræðunni um afstöðu sína í Icesave-málinu og sagðist hafa tekið það mjög nærri sér, þegar hann fann að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki samstíga í því erfiða máli. Hann sagðist leggja verk sín óhræddur fram því hann tryði því að mestu skipti að vera heill og trúr sannfæringu sinni og gera allt það hann teldi vera best fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar.