Þrennt bjargaði Íslendingum

Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður, ávarpar landsfund.
Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður, ávarpar landsfund. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði landsfund Sjálfstæðisflokksins og sagði að þrennt réði því að Íslendingar séu ekki í sömu vandræðum og t.d. evrulöndin.

Þetta væri, að Íslendingar hefðu  búið í haginn fyrir sig greitt niður opinberar skuldir í stórum stíl eftir 1995. Íslendingar hefðu komist að þeirri niðurstöðu samstundis eftir bankahrunið að þeim bæri ekki að greiða skuldir óreiðumanna og Íslendingar höfðu sína eigin mynt. 

En tækifærinu, sem gafst til að komast hratt og vel áfram eftirköst bankahrunsins hefði verið glutrað þegar núverandi stjórnvöldum skolaði inn í stjórnarráðið við bumbuslátt búsáhalda. Þess vegna færi nú fram eignaupptaka í landinu og þess vegna fari tækifærin forgörðum. Þess vegna hefðu loforð eins og skjaldborg og norræn velferð orðið að almennum háðsyrðum í íslensku máli.

„Ríkisstjórnin lofaði hástöfum að tryggja norræna velferð. Og hvaða kosti býður hún upp á til að tryggja norræna velferð? Jú þá, að þeir sem vilja velferð geta flutt út með Norrænu," sagði Davíð.

Davíð sagði að Íslendingar ættu það inni, að ná sér í strik. Það mætti ekki varna þeim vegar og leggja steina í götuna en það yrði að varpa af þeim klafa, sem lagður hefði verið að óþörfu.

Sjálfstæðismenn ættu á landsfundinum að heita því að gera allt sem þeir mættu til að veita landsmönnum tækifæri.

Keppt í pylsuáti

Davíð sagði m.a. í ræðu sinni að á landsfundi Vinstri grænna nýlega hefðu aðeins verið tvö atriði á skemmtidagskrá fundarins. Fyrst hafi verið keppt í pylsuáti og þar áttu menn að keppa í að éta ofan í sig. „Árni Þór Sigurðsson vann," sagði Davíð.

„Svo var Steingrímur J. Sigfússon látinn segja satt í samfellt tvær mínútur og sá vann sem seinast leið yfir á fundinum. Björn Valur Gíslason vann."

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokkssins í Laugardalshöll.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokkssins í Laugardalshöll.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert