Vilja lækka hámarkshraða

Vegagerðin stefnir á að þvera Mjóafjörð í fjarðarmynninu. Það styttir …
Vegagerðin stefnir á að þvera Mjóafjörð í fjarðarmynninu. Það styttir leiðina. mbl.is/Helgi Bjarnason

Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun þrýsta mjög á Vegagerðina að gera ráð fyrir lækkuðum hámarkshraða við hönnun nýs Vestfjarðavegar um Litlanes í Múlasveit. Þannig væri hægt að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið. Vegagerðin telur það hins vegar auka hættu á slysum.

Vegagerðin er að undirbúa lagningu nýs kafla á Vestfjarðavegi nr. 60 frá Eiði í Vattarfirði, um Kerlingafjörð og Mjóafjörð að Þverá í Kjálkafirði. Vegurinn er í Reykhólahreppi og Vesturbyggð.

Núverandi vegur er gamall malarvegur, liðlega 24 km að lengd. Nýi vegurinn verður 16 eða 19 km langur, eftir því hvaða leið verður farin, og styttist því um 5 til 8 kílómetra.
Vegagerðin sendi matsskýrslu til Skipulagsstofnunar 13. október sl. Skipulagsstofnun hefur fjórar vikur til að gefa álit sitt. Sá tími er nú liðinn og hefur Vegagerðin birt matsskýrsluna á vef sínum.

Áformað hefur verið að bjóða veginn út að hluta fyrir áramót, náist að ljúka undirbúningi, og vinna verkið á næstu tveimur til þremur árum. Kostnaður er áætlaður 3,2 milljarðar kr.

Þrengsli á Litlanesi

Vegagerðin ber einkum saman tvær veglínur, A og B. Þær falla saman nema á tveimur köflum. Vegagerðin leggur til að farin verði sú leið að þvera Mjóafjörð í fjarðarmynninu, en ekki í botni hans, og að fara utar á Litlanesi.

Afar þröngt er um lagningu vegar um Litlanes og hefur framkvæmdin í för með sér röskun á fjörum og landi sem er friðað samkvæmt lögum.

Vegagerðin hefur hannað veg sem verður með bundnu slitlagi og uppbyggður með tilliti til snjóa. Hann verður miðaður við 90 km hámarkshraða.

Fram kemur í matsskýrslunni að Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun hafa í þeim miklu samskiptum sem verið hafa við gerð matsskýrslunnar þrýst á Vegagerðina að athuga möguleika á hönnun vegar sem skerðir umhverfið á Litlanesi minna en veglínur Vegagerðarinnar. Sérstaklega er bent á þann möguleika að hanna veginn með tilliti til 70 km hámarkshraða en ekki 90 eins og annars er á veginum. Beygjur yrðu krappari en það myndi draga úr áhrifum framkvæmdarinnar.

Telur Vegagerðin ekki rétt að lækka hámarkshraða þarna. Vegurinn verði óöruggur og  meiri hætta á umferðarslysum. Vísar Vegagerðin í því efni til þess að erfitt verði að fylgjast með því að ökumenn dragi úr hraða á þessum stutta kafla, þar sem 100 kílómetrar eru á milli mannabyggða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka