Landsfundur Sjálfstæðisflokksins felldi í dag tvær tillögur um að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu verði hætt. Var niðurstaðan sú, að orðalag í upprunalegri tillögu um að gera hlé á viðræðunum var samþykkt.
„Hér eru menn látnir kjósa þar til rétt niðurstaða er fengin," sagði Geir Waage, sóknarprestur, eftir að þessi niðurstaða lá fyrir.
Flutningsmenn tillagnanna tveggja lýstu því hins vegar yfir að þeir sættu sig við niðurstöðuna.
Annars vegar var um að ræða tillögu frá Tómasi Inga Olrich, fyrrverandi ráðherra, um að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Sú tillaga var samþykkt með 258 atkvæðum gegn 252 atkvæðum á fundinum í morgun en síðan kom fram ósk um að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin og hún yrði skrifleg.
Niðurstaðan í þeirri atkvæðagreiðslu var að 1026 tóku þátt í kjörinu. 665 felldu tillöguna og 355 vildu samþykkja hana.
Síðan var borin upp tillaga frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra, um að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu yrði hætt og ekki yrði sótt um aðild á ný fyrr en skýr vilji lægi fyrir frá þjóðinni eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi tillaga var felld með 617 atkvæðum gegn 430. Síðan var tillaga um utanríkismál í heild samþykkt með þorra atkvæða.