Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Segir í ályktun landsfundar flokksins um fjármál heimilanna, sem samþykkt var í dag, að þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna sé forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að um 200 manns hefðu tekið þátt í starfi nefndar, sem fjallaði um ályktunina á landsfundinum og skilaboðin væru þau að þetta væri mikilvægasta mál landsfundarins. „Fjármál heimilanna eru forgangsmál hjá Sjálfstæðisflokknum," sagði Guðlaugur.
Þá sagði hann að í ályktuninni væri sleginn nýr tónn um að dregið yrði úr verðtryggingu þótt ekki væri lagt til að hún yrði bönnuð. Í ályktuninni segir m.a. að verðtrygging neytendalána eigi ekki að vera valkostur í nútímasamfélagi.