„Ég trúi því að vor, von og birta sé framundan í lífsskoðunar- og trúmálum hér á landi og að það eigi einnig við um málefni hinnar almennu kirkju landsmanna,“ sagði Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur við Fríkirkjuna í Reykjavík, í útvarpsmessu í morgun.
Hjörtur Magni lagði í prédikun sinni áherslu á að hugsað verði út fyrir kassann. Þar sé Guð að finna. Ekki í úreltum hefðum eða lífvana siðum. Í því samhengi gagnýnir hann - óbeinum orðum - hugmyndir um að reist verði miðaldakirkja í Skálholti.
„Guð er ekki að finna í endurgerð risavaxinna miðalda kirkjubygginga, hvort sem þær eru gerðar úr grjóti eða timbri. Trúverðugleiki verður ekki keyptur með enn einni kirkjubyggingunni, þegar risavaxnar skuldir vegna fyrri kirkjubygginga og viðhalds þeirra, eru að sliga marga söfnuði landsins.“
Fríkirkjuprestur segir skráningar úr þjóðkirkjunni tala sínu máli og séu mjög skiljanlegar. Æ fleiri kjósi og að standa utan allra trúfélaga. Á sama tíma fjölgi fólki innan vébanda fríkirkna sem, þrátt fyrir mikla fjárhagslega mismunun, starfa á lýðræðis- og jafnréttisgrunni, óháð ríki. Í slíku segir hann felast mismunun enda njóti fríkirkjufólk með því fyrirkomulagi ekki þeirra réttinda sem stjórnarskrá lýðveldisins kveði á um.
„Hin almenna kirkja er ekki afmörkuð eða skilgreind eftir reglugerðagirðingum ríkiskirkjunnar, heldur er sú kirkja opin í anda Jesú Krists og allir þeir sem vilja vera sannir í lífi sínu, allir þeir sem vilja vera samfélagslega ábyrgir og sýna náunganum kærleika og samhygð í verki, allir þeir tilheyra hinni almennu kirkju og þar tel ég að flestallir landsmenn séu meðtaldir, það er að segja þeir sem kæra sig um,“ sagði Hjörtur Magni Jóhannsson.