Harðlínuöfl ofan á

Magnús Orri Schram.
Magnús Orri Schram.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, segir á bloggvef sínum að við blasi að harðlínuöfl undir forustu Davíðs Oddssonar hafi orðið ofan á í því sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins kalli málamiðlun í Evrópumálum.

„Málamiðlun um að hætta við og kjósa um að kjósa. Þvílík nálgun á mikilvægasta úrlausnarefni samtíma okkar; framtíð gjaldmiðils- og peningamála þjóðarinnar sem situr uppi með verðlausan og verðtryggðan gjaldmiðil í höftum eftir 18 ára „sæluríki“ Sjálfstæðisflokksins," segir Magnús.

Hann segir að ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst í stjórn eftir 18 mánuði verði viðræðum við Evrópusambandið væntanlega lokið.

„Þá vilji sjálfstæðismenn sem sagt að ráðist verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort samningur skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin á að ákveða hvort þjóðin á að ákveða.  Stundum verða málamiðlanir að bastörðum," segir Magnús.

Bloggvefur Magnúsar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert