Leikritið Jesús litli, í uppfærslu Borgarleikhússins, var sýnt í Principal-leikhúsinu í
Vitoria á Spáni í gærkvöldi sem hluti af hinni árlegu Alþjóðlegu Vitoria-leiklistarhátíð. Samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu tekur leikhúsið 1000 manns í sæti og var uppselt á sýninguna.
Leikhópurinn flutti sýninguna í nýrri enskri þýðingu en hún var einnig textuð á spænsku. Var leikhópnum fagnað ákaft í sýningarlok og klappaður margsinnis upp, en í leikritinu er tekið á jólaguðspjallinu með nýjum hætti.
Að sögn Borgarleikhússins voru margir stjórnendur leikhúsa og leiklistarhátíða á sýningunni og lýstu nokkrir áhuga á að fá sýninguna til sýninga. Eru þegar hafnar viðræður um sýningar í Madrid og í Bilbaou.
Nýlega samdi Borgarleikhúsið við umboðsskrifstofuna Ysarca um kynningu og sölu á Jesús litla í spænskumælandi löndum. Einnig eru til skoðunar sýningar í fleiri Evrópulöndum.
Sýningar hefjast á Jesús litla í Borgarleikhúsinu á nýjan leik nú í lok vikunnar, þriðja leikárið í röð. Jesús litli hlaut Íslensku leiklistarverðlaunin, Grímuna í fyrra sem leiksýning ársins.
Leikritið er eftir Benedikt Erlingsson, Berg Þór Ingólfsson, Halldóru Geirharðsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur og Snorra Frey Hilmarsson.