„Flugið til New York gengur ekki upp eins og staðan er núna. Því verðum við að endurskoða mál,“ segir Heimir Már Pétursson, talsmaður Iceland Express. Flugfélagið hefur aflýst ferð þangað á morgun og áframhaldandi flug til þessa áfangastaðar er í endurskoðun.
Til stóð að Iceland Express flygi til New York fram til 9. janúar og svo yrði þráðurinn tekinn aftur upp í lok mars. Nú er verið að endurskoða þau plön.
Þeim farþegum sem áttu bókað far með Iceland Express til New York á morgun verður útvegað far með öðrum flugfélögum.
„Verð farmiða ræðst af mörgum samverkandi þáttum; svo sem gengi gjaldmiðla, flugvélategundum og svo framvegis. Og hvað áhrærir flugið til New York þá getum við sem lággjaldaflugfélag ekki hækkað verð á farmiðum til Evrópu til að bera Bandaríkjaflugið uppi,“ segir Heimir Már.