Tillaga frá Tómasi Inga Olrich, fyrrverandi ráðherra, um að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka, var samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Óljóst er þó hvort þetta er endanleg niðurstaða.
Tillagan var samþykkt með 258 atkvæðum gegn 253 atkvæðum í atkvæðagreiðslu á landsfundinum. Í kjölfarið komu fram kröfur á fundinum um að atkvæðagreiðslan yrði endurtekin og að hún verði skrifleg. Sturla Böðvarsson, fundarstjóri, tilkynnti síðan að atkvæðagreiðslunni yrði frestað um sinn og að hún yrði skrifleg.
Áður höfðu verið líflegar umræður um þá tillögu, sem lá fyrir frá utanríkismálanefnd landsfundarins um að gera skuli hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.