Málfundafélagið Óðinn og verkalýðsráð Sjálfstæðisflokksins völdu Davíð Oddsson, fyrrverandi formann flokksins, ræðumann landsfundar flokksins um helgina.
Segir í tilkynningu að allir, sem tóku til máls í aðalræðupúlti fundarins, hafi verið í kjöri og hafi allir þátttakendur landsfundar getað kosið. Gríðarleg spenna hafi verið í kjörinu og fengu yfir 20 aðilar atkvæði en það fór svo að Davíð Oddsson varð hlutskarpastur.
Davíð ávarpaði landsfundinn klukkan 14 á laugardag og segir í tilkynningunni að ræða hans hafi þótt hæfilega löng og hnyttin. Í öðru sæti var séra Halldór Gunnarsson en aðrir sem fengu góða kosningu voru meðal annars Geir H. Haarde, Elliði Vignisson, Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir.