Breska flugfélagið Astraeus Airlines hefur hætt starfsemi, samkvæmt upplýsingum sem mbl.is hefur fengið frá félaginu. Eigandi Astraeus Airlines er eignarhaldsfélagið Fengur sem er í eigu Pálma Haraldssonar en hann er einnig eigandi Iceland Express.
Iceland Express tilkynnti í hádeginu að tékkneska félagið CSA Holidays, sem er í eigu CSA Airlines, muni frá og með deginum í dag annast flug fyrir Iceland Express.
Samkvæmt upplýsingum frá Astraeus Airlines hefur stjórn félagsins ákveðið að hætta starfsemi í dag. Breskur dómstóll hefur samþykkt að skipa skiptastjóra yfir félaginu.
Hugh Parry, forstjóri Astraeus, segir að reynt hafi verið að bjarga rekstri félagsins en afkoman síðasta sumar hafi verið verri en vænst hafði verið. Eins hafi útlitið fyrir yfirstandandi vetur ekki staðist væntingar og ýmsir tæknilegir örðugleikar reynst félaginu dýrkeyptir. Því sé ekki annað hægt en að óska eftir slitameðferð Astraeus Airlines.
Allt hafi verið gert til þess að tryggja að farþegar sem eiga bókað far með félaginu geti lokið ferðalagi sínu.