„Þetta er óásættanlegt og það er búið að aðvara bílstjórann,“ segir Ólafur Hand, upplýsingafulltrúi Eimskipa en sendiferðabíl fyrirtækisins var í dag lagt í stæði fyrir fatlaða. Vegfaranda blöskraði svo athæfið að hann tók mynd og sendi til fjölmiðla.
„Það hefur verið imprað á því við aðra bílstjóra að fylgja lögum og reglum og við leggjum mikið upp úr því að bílstjórar okkar geri það. Það er stöðugt verið að fara yfir umferðarreglur með bílstjórum og þeir hafa hingað til verið til fyrirmyndar,“ segir Ólafur.
Búið er að halda fund með öllum bílstjórunum sem starfa hjá Eimskipum sem og yfirmönnum þeirra. Málið sé tekið mjög alvarlega. „Þetta er leiðinlegt og óheppilegt mál og við hörmum þetta en eins og allir með bílpróf vita þá á ekki að gera þetta. Þetta er ekki eitthvað sem við líðum og menn fá aðvörun, ekkert öðruvísi.“