Delta flýgur til Íslands næsta sumar

Delta Air Lines flaug á milli Bandaríkjanna og Íslands sl. …
Delta Air Lines flaug á milli Bandaríkjanna og Íslands sl. sumar.

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines hefur tilkynnt að það muni hefja á ný sumaráætlunarflug milli Keflavíkurflugvallar og John F. Kennedy-flugvallar í New York, en flugið hefst 2. júní 2012.

Fimm áætlunarflugferðir verða í hverri viku yfir sumarmánuðina í samstarfi við Air France-KLM en félögin eiga með sér samstarf í alþjóðlegu áætlunarflugi. Delta verður á ný eina bandaríska flugfélagið sem býður upp á beint áætlunarflug milli Íslands og Bandaríkjanna, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Á þessari leið mun Delta nota 183 sæta Boeing 757-200 þotu en í henni eru 15 Bussiness Elite-sæti, auk þess 12 sæti í Economy Comfort og 155 sæti á almennu farrými.  Komutími þotnanna til New York hentar vel fyrir áframflug Delta til vinsælla áfangastaða í Bandaríkjunum, Delta býður upp á mun fleiri flugferðir frá Kennedy-flugvelli en önnur flugfélög sem fljúga á þessari sömu flugleið.

Flug Delta næsta sumar verður sem hér segir:

Flug DL52 fer frá Keflavík kl. 11.50 að morgni og lendir á Kennedy-flugvelli kl. 13.50 sama dag.

Flug DL51 fer frá New York kl. 23.10 að kvöldi og lendir í Keflavík kl. 8.55 að morgni næsta dags,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert