Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands hlaut í byrjun þessa mánaðar samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) til þess að starfa undir formerkjum hennar.
Er um að ræða mikla viðurkenningu á störfum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðning við framtíðaráform hennar.
Efnt verður til opinnar samkeppni um hönnun húsnæðis fyrir Alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á næstunni og er gert ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir í apríl á næsta ári. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við bygginguna hefjist á fyrri hluta 2013 og að hún verði tekin í notkun á árinu 2014. Byggingin mun rísa við Suðurgötu næst gömlu Loftskeytastöðinni.
Fyrsti áfangi byggingarinnar verður 3.000 fermetrar að stærð auk bílageymslu og tengingar við Háskólatorg. Í deiliskipulagi er heimild fyrir allt að 7.200 fermetra byggingu á byggingarreitnum.
Þetta kom meðal annars fram á blaðamannafundi á Háskólatorgi Háskóla Íslands í dag þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, kynntu vottun UNESCO og fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir.