Þrjátíu starfsmönnum Keflavik Flight Services, sem var þjónustuaðili Iceland Express, hefur verið sagt upp störfum. Iceland Express samdi við tékkneska félagið CSA Holidays um að annast flug fyrir sig eftir að Astreus fór í þrot en CSA er með samning við þjónustufyrirtækið IGS, dótturfélag Icelandair Group.
„Þetta er mjög sárt,“ segir Hilmar Hilmarsson, eigandi Keflavik Flight Services. „Við fengum bara símtal frá Iceland Express í hádeginu, eftir að við vorum búin að afgreiða allar vélarnar sem fóru í morgun, og okkur var sagt að við myndum ekki afgreiða fleiri vélar frá þeim,“ segir Hilmar. IGS tók strax við og afgreiddi vélarnar sem voru að koma til landsins og fara frá því seinnipartinn. „Það var ekki mjög skemmtilega farið að þessu og það er mjög leiðinlegt að þurfa að segja upp öllu starfsfólki rétt fyrir jól. Þetta er ofboðslega gott fólk.“
Hilmar segir að skoða þurfi lagalegu hliðarnar á málinu þar sem samningur við Iceland Express sé enn í gildi. Samningur til sex ára var undirritaður í apríl. „Við fjárfestum mjög mikið til að koma þessu af stað. Það hafa farið mjög háar upphæðir í dýran tækjabúnað og þjálfun. Þetta var stór og mikill pakki sem við fjárfestum í til að fara í þetta samstarf með þeim og því er þetta mjög sárt.“