Smávægilegir byrjunarörðugleikar

CSA sér nú um flug fyrir Iceland Express í stað …
CSA sér nú um flug fyrir Iceland Express í stað Astreus. Þorgeir Baldursson

Lítilvæg röskun varð á flugi Iceland Express í dag þar sem tékkneska flugfélagið CSA Holidays var að taka við af Astreus Airlines sem fram til dagsins í dag hafði séð um allt flug fyrir Iceland Express.

Tvær flugvélar þurftu að fara á þrjá staði og því varð rúmlega klukkutíma töf þegar vél á leið frá Berlín til Keflavíkur þurfti að millilenda í Kaupmannahöfn og ná í farþega þar. Vegna þessa myndaðist yfirbókun og buðust fjórtán farþegar til að vera eftir í Kaupmannahöfn. Munu þeir komast til landsins á morgun.

Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að ekki sé búist við neinni röskun á flugi á morgun. Að sögn farþega sem var um borð í fluginu frá Berlín til Keflavíkur var afar fagmannlega að öllu staðið, flugfreyjurnar voru „frábærar“ og staðið var við allt sem sagt var við farþegana, t.a.m. að aðeins yrði stoppað í Kaupmannahöfn í klukkustund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert