Hagsmunasamtök heimilanna segja að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi tekið undir kröfur samtakanna varðandi fjármál heimilanna.
Þetta komi fram í ályktun sem var samþykkt á fundinum. Þar segi m.a.:
„Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða lög nr. 151/2010 sem ríkisstjórnin setti í kjölfar ólöglegu gengislánanna. Lagasetningin hefur aukið á óvissu, kallað á málaferli og skaðað stöðu lánþega.
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána. Þessi aðgerð og önnur endurskipulagning skulda heimilanna er forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðaruppbyggingu íslensks þjóðfélags.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með sama hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, sem getur leitt til að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar. Verðtrygging neytendalána á ekki að vera valkostur í nútímasamfélagi,“ segir í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
Samtökin segja að afstaða fundarins sé í fullu samræmi við niðurstöður könnunar sem samtökin létu nýlega framkvæma.
„Í könnuninni kom meðal annars fram að 79% af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkin í síðustu Alþingiskosningum eru hlynnt afnámi verðtryggingar og 83% af kjósendum flokksins eru fylgjandi almennri niðurfærslu lána.
Þingmenn flokksins ættu því ekki að þurfa að velkjast í vafa um hver vilji Sjálfstæðismanna er í þessum efnum. Nú verður forvitnilegt að sjá hvort forystan leiðir fram vilja fundarins eða ekki,“ segja samtökin.