20 Danir strandaglópar í New York

Vefur B.T.
Vefur B.T.

Tuttugu Danir eru strandaglópar í New York en þeir ætluðu með flugvél Iceland Express heim til Danmerkur gegnum Ísland. Fréttavefur B.T. hefur eftir upplýsingafulltrúa félagsins að Danirnir hafi haft slökkt á símum sínum og því hefði ekki verið hægt að láta þá vita að fluginu var aflýst.

Flugi Iceland Express til New York í gær var aflýst eins og komið hefur fram á mbl.is. B.T. segir, að 20 Danir í New York hafi hins vegar ekki fengið neinar upplýsingar um þetta og mætt út á Newark-flugvöll í New Jersey síðdegis í gær. Þar voru hins vegar aðeins tóm innritunarborð og starfsmenn flugvallarins voru engu nær. Dönunum tókst ekki að fá far heim eftir öðrum leiðum. 

„Við komum út á flugvöll klukkan 17-18 að bandarískum tíma og fengum þá að vita, að ekkert okkar væri í þeirra kerfi. Þetta var afar óþægilegt. Við skiljum ekki hvers vegna þeir gátu ekki bókað okkur í aðrar flugvélar,“ hefur vefurinn eftir farþeganum Lunu Boldsen.  

Hún og hinir farþegarnir 19 þurftu að dvelja á hóteli við flugvöllinn í nótt.

B.T. segir að starfsmenn flugvallarins hafi heldur ekki fengið upplýsingar um breyttar áætlanir íslenska félagsins.

„Við fengum engar upplýsingar frá Iceland Express. Þeir aflýstu fluginu bara í gær,“ hefur vefurinn eftir Elisu, sem starfar á Newark-flugvelli. 

B.T. segir að Iceland Express hafi í síðustu viku tilkynnt, að félagið myndi ekki fljúga milli Keflavíkur og New York á tímabilinu frá 9. janúar til 28. mars. Það svari til 33 flugferða og nærri 15 þúsund flugsæta. 

Haft er eftir Heimi Má Péturssyni, upplýsingafulltrúa Iceland Express, að allt hafi verið gert til að reyna að hafa samband við dönsku farþegana í New York. 

„Við reyndum að hringja í alla, sem ætluðu með flugvélinni, en það var slökkt á símunum þeirra. Einnig reyndum við að senda þeim tölvupóst. Við gerðum það sem við gátum,“ segir Heimir Már. 

Þegar B.T. spurði hann hvort það væri ekki einkennilegt að enginn hinna 20 dönsku farþega skyldi hafa svarað símanum tekur Heimir Már undir það. „Það er ekki gáfulegt að hafa slökkt á farsímanum sínum þegar svona stendur á,“ segir hann.

Heimir Már segir, að dönsku farþegarnir muni ekki þurfa að bera aukakostnað af því að komast heim til sín.

Vefur B.T.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert