Hjón sem gista í svefnpokaplássi greiða tvöfalt gistináttagjald á við þá sem gista á hóteli, með nýjum gistináttaskatti sem lagður verður á um áramót. Allir sem gista á hótelum og gistiheimilum þurfa að greiða 100 krónur í sérstakan skatt til ríkisins í hvert sinn sem þeir kaupa sér gistingu.
Þeir sem gista í hjólhýsi, tjaldvögnum eða í tjaldi þurfa einnig að greiða þetta gjald. Einnig þeir sem gista í svefnpokaplássi en þeir greiða fyrir hvert pláss, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að einstaklingur sem keypti sér gistingu á hóteli greiddi 100 krónur og sá sem gisti í annars konar gistingu greiddi 50 krónur. Frumvarpinu var hins vegar breytt í meðförum þingsins. Niðurstaðan varð sú að aðeins eru innheimtar 100 krónur „af hverri seldri gistináttaeiningu“.
Þetta þýðir að hjón sem gista á hótelherbergi greiða 100 krónur og fjögurra manna fjölskylda sem gistir í tjaldi greiðir sömuleiðis 100 krónur. Við skilgreiningu á gistináttaeiningu var ákveðið að skilgreina svefnpoka sem eina gistináttaeiningu og því greiða hjón sem kaupa sér svefnpokapláss 200 krónur samtals.