Hundruð myndu missa vinnuna

Járnblendiverksmiðjan Elkem á Grundartanga.
Járnblendiverksmiðjan Elkem á Grundartanga. mbl.is/Sverrir

Nokkur hundruð manns yrðu atvinnulausir ef járnblendiverksmiðjunni Elkem Ísland á Grundartanga yrði lokað. Einar Þorsteinsson, forstjóri fyrirtækisins, segir að verði hinn nýi kolefnisskattur að veruleika muni það þýða endalok starfsemi verksmiðjunnar.

Það starfa um 200 manns beint hjá fyrirtækinu Elkem Ísland,“ segir Einar. „Því til viðbótar starfa hér hátt á 100 manns í flutningum, viðhaldi og annarri þjónustu við verksmiðjuna. Síðan er fjöldi afleiddra starfa hér á svæðinu, á Akranesi og víðar og verða þau talin í mörgum hundruðum.“

Verði frumvarpið samþykkt mun fyrirhuguð álagning kolefnisgjalds sem lögð verður á félagið verða u.þ.b. 430 milljónir árið 2013,  645 milljónir árið 2014 og 860 milljónir árið 2015, óháð afkomu. „Til viðbótar við það koma losunarkvótar fyrir CO2 sem við þurfum að taka á okkur út af Evrópusambandstilskipunum. Ef við bætum því við árið 2015 erum við komin með vel á annan milljarð sem við þurfum að greiða aukalega sem er álíka jafnmikið og heildarlaunakostnaður fyrirtækisins,“ segir Einar. „Skattarnir eru semsagt ígildi þess að við myndum tvöfalda hjá okkur mannskapinn og helmingurinn stæði hér og væri ekkert að gera.“

Einar segir að meðalhagnaður fyrirtækisins undanfarin tíu ár hafi verið um 250 milljónir króna á ári. „Ef við þurfum að fara að borga milljarð af 250 milljóna kr. hagnaði þá er alveg ljóst hvert stefnir. Við tökum þessu því mjög alvarlega.“

Einar bendir á að Elkem Ísland sé stór orkukaupandi hjá Landsvirkjun. „Landsvirkjun myndi því missa mikil viðskipti nema þeim tækist að selja einhverjum öðrum orkuna sem ég veit ekki hver ætti að vera, miðað við hvernig þessi mál eru í dag. Ég hef ekki mikla trú á því að menn standi í biðröðum að koma með iðnað til landsins núna miðað við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert