Flestir þeirra 30 sem sagt var upp hjá fyrirtækinu Birk flugþjónustu eru félagar í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, VSFK. Fólkinu var sagt upp eftir að Iceland Express hætti viðskiptum við flugfélagið Astraeus og tók upp samstarf við tékkneska flugfélagið CSA Holidays.
„Þetta var mjög hröð atburðarás í gær, eftir að í ljós kom að Keflavík Ground Services hafði ekki heimild til að þjónusta Airbus-vélarnar,“ segir Kristján Gunnar Gunnarsson, formaður VSFK.
Hann segir að flestir starfsmannanna hafi verið með stuttan starfsaldur og þar af leiðandi sé uppsagnarfrestur þeirra einn mánuður. Þeir munu því fá laun fram að áramótum.
„Þetta voru neyðarviðbrögð hjá Iceland Express, þau þurftu að fá annað fyrirtæki til að sinna þessu. En svo gæti verið að fyrirtækið sem tók við þurfi að fjölga starfsmönnum vegna þessa,“ segir Kristján.
Hann segir að verkalýðsfélagið muni liðsinna þeim sem sagt var upp eins og kostur sé og segist vona að þeir fái önnur störf sem allra fyrst. „En þetta er hundsbit fyrir okkur hérna á Suðurnesjunum.“