Jónas Ingimundarson heiðursborgari Kópavogs

Jónas Ingimundarson píanóleikari.
Jónas Ingimundarson píanóleikari. Ómar Óskarsson

Bæjarstjórn Kópavogs hefur ákveðið að gera Jónas Ingimundarson píanóleikara að heiðursborgara Kópavogs. Með því vill bæjarstjórn sýna honum þakklæti fyrir ómetanlegt starf í þágu tónlistar, menningar og tónlistaruppeldis. Jónas verður heiðraður með móttöku í Salnum 4. desember nk.

Jónas hefur frá árinu 1994 starfað sem tónlistarráðunautur Kópavogs og var einn helsti hvatamaður þess að Salurinn, tónlistarhús Kópavogs, var byggður en húsið var vígt í janúar 1999. Hann er fjórði heiðursborgari bæjarins. Hjálmar Hjálmarsson, forseti bæjarstjórnar, segir Jónas hafa unnið ómetanlegt starf í þágu tónlistar og menntunar í Kópavogi. Dugnaður hans, hæfileikar og listfengi hafi skapað honum nafn sem eins fremsta tónlistarmanns Íslendinga.

Jónas er fæddur á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum í Rangárvallasýslu 30. maí 1944. Hann hóf tónlistarnám sitt eftir fermingu hjá frú Leopoldínu Eiríks en árin þar á eftir stundaði hann tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhalsnám við Tónlistarskólann í Vínarborg. Hann lék á sínum fyrstu opinberu tónleikum árið 1967 en síðan þá hefur hann haldið fjölda tónleika hér heima sem og erlendis.

Jónas var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og Dannebrog orðunni árið 1996. Hann hefur einnig hlotið heiðursverðlaun VÍS, Íslandsbanka og DV og þá hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna er þau voru í fyrsta sinn veitt árið 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert