Afleiðingar skattsins skelfilegar

Frá Grundartangahöfn.
Frá Grundartangahöfn. Rax / Ragnar Axelsson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir ef kolefnisskattur verði lagður á stóriðjuna með þeim hætti sem fjármálaráðherra hefur gert tillögu um verði afleiðingarnar skelfilegar fyrir Akranes og þá sem byggja afkomu á stóriðju.

Vilhjálmur sagði þetta á fundi sem hann átti með þingmönnum Norðvesturkjördæmis, bæjarstjóra Akraness og oddvitum flokkanna í bæjarstjórn Akranes í dag. Hann sagði í samtali við mbl.is að það væri ekki rétt sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hélt fram í gær að þessi kolefnisskattur væri lagður á víða í Evrópu. „Það er bara rangt hjá honum. Samkvæmt Evrópureglugerðum eru álfyrirtækin og kísiliðnaðurinn undanþegin þessum skatti. Þetta var innleitt í reglugerð í gegnum EES-samninginn.“

Vilhjálmur sagði að stóriðjan á Grundartanga hefði gríðarlega þýðingu fyrir Akranes og svæðin í kring. Þessi iðnaður skapaði um 3000 bein og afleidd störf. Þarna væru borguð góð laun. Ófaglærður starfsmaður væri með um 500 þúsund í laun á mánuði eftir þriggja ára starf og iðnaðarmaður væri með um 650 þúsund. Fyrir bæjarsjóð Akranes skipti þetta öllu máli. Hann nefndi sem dæmi að tekist hefði að knýja fram yfir 14% launahækkun hjá Norðuráli í síðustu samningum, en það þýddi um 4 milljónir í auknar útsvarstekjur hjá Akranesbæ á mánuði.

„Mér ofbýður hvernig alltof margir stjórnmálamenn tala um stóriðjuna. Sumir finna henni allt til foráttu, það er mál að linni og menn hætti að tala með þessum hætti um þessa starfsemi.“

Vilhjálmur sagði að ekki mætti haga skattlagningu á stóriðjuna með þeim hætti að hún skekkti samkeppnisstöðu Íslands. Tillögur fjármálaráðherra væru illa undirbúnar og út úr öllu korti. Hann sagðist hafa skoðað hagnað Elkem á Grundartanga síðustu 13 árin. Hagnaðurinn væri á þriðja milljarð á þessu tímabili. Ef tillaga fjármálaráðherra yrði samþykkt myndi skatturinn þurrka upp þennan hagnað á rúmlega tveimur árum.

„Sá skattur sem talað er um að leggja á jafngildir því að Elkem myndi ráða til sín 200 starfsmenn sem gerðu ekki neitt. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp.“

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert