Iceland Express, sem hefur fellt niður flug til New York, býðst til að endurgreiða farþegum sem áttu bókað flug til borgarinnar. Upplýsingafulltrúi Iceland Express segir að allir farþegarnir eigi að vera búnir að fá tilkynningu frá fyrirtækinu varðandi breytingarnar.
Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að félagið muni einnig skoða hvort aðrar leiðir séu í boði til að liðsinna farþegunum. Það fari m.a. eftir hversu langt sé í flugið. Iceland Express flaug til New York á mánudögum og fimmtudögum.
„Við semjum um þetta við hvern og einn farþega. Við sendum skilaboð á alla,“ segir Heimir. Skilaboð hafi verið send í tölvupósti og þar séu gefnir upp nokkrir kostir.
Ekki fæst uppgefið um hversu marga farþega er að ræða. Það er þó ljóst að um fjölmenni er að ræða, en Heimir segir að það muni taka nokkrar vikur að leysa úr málum allra.
Aðspurður hvort Iceland Express muni aðstoða farþega við að komast í annað flug til borgarinnar segir Heimir að fyrirtækið muni aðstoða farþegana eftir fremsta megni. Farið verði yfir mál hvers og eins.
Spurður út í viðbrögð farþega við þeirri ákvörðun Iceland Express að fella niður flug til New York segir Heimir: „Það er allur gangur á því. Auðvitað hafa margir orðið fyrir vonbrigðum að geta ekki flogið, en langflestir hafa skilning á því.“
Hann segir að bókanirnar hafi einfaldlega ekki verið nægilega margar. Miðarnir hafi verið of ódýrir og kostnaðurinn við hvert flug hafi verið það mikill að tap hafi verið á hverri einustu ferð til New York. „Það gefur augaleið að það getur ekkert félag búið við það,“ segir Heimir.