Ríkisendurskoðandi kallaður til fundar

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Ómar Óskarsson

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis samþykkti á fundi í dag að fara fram á það við Svein Arason ríkisendurskoðanda að hann mæti á fund nefndarinnar á morgun til að útskýra hvers vegna hann ætli ekki að vinna skýrslu um fyrirhugaðar framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng.

Umhverfis- og samgöngunefnd óskaði í síðustu viku eftir að Ríkisendurskoðun gerði heildarúttekt á áætluðum kostnaði við Vaðlaheiðargöng og getu Vaðlaheiðarganga til að standa skil á afborgunum. Í svari Ríkisendurskoðunar er bent á að stofnunin fari með lögbundið verkefni og sé fyrst og fremst endurskoðunar- og eftirlitsstofnun. Henni sé ekki ætlað að vinna arðsemisútreikninga eins og nefndin kalli eftir. Auk þess sé ríkisendurskoðandi tengdur Kristjáni Möller, alþingismanni og stjórnarformanni Vaðlaheiðarganga hf., fjölskylduböndum og sé því vanhæfur til að fjalla um málið.

„Það er mikil undrun hjá meirihluta nefndarmanna yfir því að Ríkisendurskoðun skuli hafa hafnað þessari beiðni,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingmaður VG og formaður nefndarinnar.  „Bæði er það þannig að Ríkisendurskoðun er undirstofnun Alþingis sem samkvæmt lögum á að veita þingnefndum ráðgjöf auk þess sem arðsemismat liggur þegar fyrir og allar forsendur eru ljósar, svo við erum bara að biðja um að yfir það sé farið og það kannað til hlítar. Þannig að þetta kemur okkur mjög spánskt fyrir sjónir og vekur ýmsar spurningar hjá nefndarmönnum.“

Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert