Rannsaka ríkisaðstoð til fjárfestingabanka

Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.
Höfuðstöðvar Eftirlitsstofnunar EFTA.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hefja formlega rannsókn á ríkisaðstoð í tengslum við lánveitingar til fjárfestingarbankanna Saga, VBS og Aska Capital.

Stofnunin segir í tilkynningu að í mars 2009 hafi ríkissjóður Íslands veitt lán á hagstæðum kjörum til fjárfestingarbankanna þriggja og hafi lánin numið alls um 52 milljörðum króna, en í júlí 2010 hafi ESA borist kvörtun frá hagsmunaaðila vegna þessara lánveitinga.

Fram kemur að tilgangur lánveitinganna hafi verið að skuldbreyta skammtímaveðlánum og verðbréfalánum frá Seðlabanka Íslands í lán til langs tíma en lán Seðlabankans hafi verið fallin í vanskil í kjölfar efnahagshrunsins.

„Veðlán Seðlabankans voru veitt með veði m.a. í skuldabréfum útgefnum af viðskiptabönkunum þremur Glitni, Kaupþing og Landsbanka Íslands. Eftir fall viðskiptabankanna í október 2008 lækkaði verðmæti fyrirliggjandi trygginga verulega og reyndist fjárfestingarbönkunum ómögulegt að leggja fram nýjar tryggingar eða gera upp skuldir sínar,“ segir í tilkynningu frá ESA.

„Af hálfu íslenskra stjórnvalda er því haldið fram að með skuldbreytingunni hafi verið ætlunin að verja hagsmuni íslenska ríkisins og þessar ráðstafanir hafi verið í samræmi við það sem almennur lánveitandi hefði gert í sömu stöðu. ESA hefur hins vegar efasemdir um að þeir skilmálar sem ríkissjóður samþykkti séu í samræmi við almenna markaðsskilmála. Ef svo er ekki, kann skuldbreytingin að fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi EES samningsins.

VBS fjárfestingarbanki og Askar Capital hafa þegar verið tekin til gjaldþrotaskipta og starfsleyfi Saga fjárfestingarbanka hefur nýlega verið afturkallað. Það er engu að síður skoðun ESA að rétt sé að ljúka mati á skilmálum lánveitinganna og fá úr því skorið hvort þeir samræmist ákvæðum EES samningsins um ríkisaðstoð.

Leiði skoðun ESA í ljós að ríkisaðstoð hafi verið veitt í bága við ákvæði EES samningsins verður óskað eftir því að íslensk stjórnvöld krefji viðtakendur um endugreiðslu hennar. Sé um að ræða aðila sem tekinn hefur verið til gjaldþrotaskipta skal lýsa kröfu í þrotabú viðkomandi aðila vegna endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar, sé þess kostur,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert