Kolefnisskatturinn síðasti naglinn í líkkistuna

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins.
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins. mbl.is/Ómar

„Hún [Sementsverksmiðjan] er búin að eiga undir högg að sækja í takt við það hvað byggingariðnaðurinn hefur farið mikið niður, auðvitað reis byggingariðnaðurinn alltof hátt hérna á bóluárunum en hann hins vegar hrundi alltof mikið eftir hrun að okkar mati,“ segir Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Að sögn Orra framleiðir Sementsverksmiðjan um 30 þúsund tonn á ári eða um það bil þriðjung af því sem þeir telja vera meðalframleiðslu á ári. Útlitið sé því ekki gott. Ákvörðun um kolefnisskatt hafi einnig gert Sementsverksmiðjunni erfitt fyrir.

„Þeir [Sementsverksmiðjan] telja að síðasti naglinn í líkkistuna sé þessi kolefnisskattur,“ segir Orri sem bætir við að ef byggingarmarkaðurinn heldur áfram að vera svona mikið niðri þá dugi það mögulega eitt og sér til en kolefnisskatturinn gulltryggi þó jarðarförina.

Orri segir að kolefnisskatturinn hafi komið mönnum á óvart enda hafi verið búið að gera samkomulag um fyrirframgreiðslu skatta árið 2009 við stóriðnað gegn því að þessi fyrirtæki færu svo bara inn í svokallað EPF-kerfi, þ.e. losunarkerfi ESB, fyrir árið 2013. 

„Þessi kolefnisskattur, hann gerir ekkert í mengunarmálum, þ.e. algjör fyrirsláttur að halda því fram að hann sé í þágu umhverfisins, vegna þess að EPF-kerfið er í þágu umhverfisins, þar er hvati til þess að blása út sem minnst og vera með eins heilnæma starfsemi og hægt er,“ segir Orri.

Orri segist vonast til þess að menn sjái að sér og dragi kolefnisskattinn til baka til þess að koma í veg fyrir þann skaða sem skatturinn mun annars valda.

Hætta sementsframleiðslu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert