Umræðan „súrrealísk“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Umræðan eins og hún hefur verið hér, og ekki hvað síst, verð ég að segja, af hálfu ráðherrans [utanríkisráðherra], er á köflum súrrealísk. Evrópusambandið er að ganga í gegnum mestu krísu síðan í seinni heimsstyrjöldinni,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á fundi utanríkismála- og atvinnuveganefndar Alþingis í dag.

Efni fundarins er staða viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, einkum er varðar samningskafla um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og er Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra gestur fundarins.

Sigmundur Davíð segir yfirlýsingar frá evrópskum leiðtogum að undanförnu hafi verið ótrúlegar og að þær séu að stigmagnast, um það að annað hvort sameinist Evrópa í eitt ríki eða hún hrynji og það verði stríð.

„Við þessar aðstæður þá láta menn hér eins og ekkert hafi breyst frá því þessi umsókn var lögð fram. Það er mjög undarlegt,“ segir Sigmundur Davíð. Hann krefst þess að staðan í Evrópu verði rædd og hvernig hún hafi áhrif á ýmsa þætti.

„Það er algjörlega ljóst að Evrópusambandið verður allt annað Evrópusamband ef það yfir höfuð lifir af,“ bætti hann við og spurði í hvernig ESB utanríkisráðherra vilji ganga í.

Evran mun lifa krísuna af

Össur segist vera þeirrar skoðunar að menn séu búnir að skilgreina vandann í Evrópu. Menn viti í hverju hann liggi. „Þetta er fyrst og fremst skuldakreppa ríkjanna. Menn þekkja vandann og menn þekkja umfang hans,“ segir Össur og bætir við að menn hafi teiknað upp leiðir til að taka á þeim vanda.

Á Íslandi í dag snúist málið um pólitískan vilja til að takast á við vandann. Sá vilji hafi ekki verið til staðar úti í Evrópu fyrr en hugsanlega nú með nýjum ríkisstjórnum sem hafi komið nýjar tillögur.

Össur hefur trú á því að evran muni komast í gegnum það ástand sem sé nú í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert