Varað við ísingu í kvöld

Varað er við því að á láglendi er hiti alveg við frostmark og víðast hvar bleyta á vegum. Almennt fer veður hægt kólnandi. Ísing og hálka myndast því mjög auðveldlega í kvöld. 

Spáð er áframhaldandi éljagangi um landið vestanvert og á Suðurlandi austur á Skeiðarársand, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eru á Sandskeiði. Snjóþekja, hálka og hálkublettir eru í uppsveitum og víða um sunnanvert landið.

Snjóþekja er á Vatnaleið, hálka á Fróðárheiði, snjóþekja og éljagangur á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Snjóþekja og snjókoma víða annarstaðar á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er víðast hvar nokkur hálka. Þungfært er á Hrafnseyrarheiði.

Á Norðvesturlandi er hálka á Vatnsskarði, Þverárfjalli og í Skagafirði. Hálkublettir eru Húnavatnssýslum.

Á Norðausturlandi er hálka og éljagangur þó er greiðfært með ströndinni í Vopnafjörð.

Á Austurlandi er hálka á Fjarðarheiði og Breiðdalsheiði og hálkublettir á Oddskarði. Snjóþekja er á Öxi.

Á Suðausturlandi er hálka frá Skeiðarársandi vestur á Mýrdalssand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert