Danska veðurstofan spáir fárviðri í Færeyjum í kvöld og nótt en óveðurslægð er nú á norðausturleið milli Íslands og Færeyja. Fram kemur á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, að norska veðurstofan hafi gefið lægðinni nafnið Berit en hún er talin munu valda usla í Noregi á morgun.
Einar segir, að lægðin muni herja á Hálogaland og Norður-Noreg á morgun, en einkum þó annað kvöld.
Lægðin sé sérlega skeinuhætt fyrir það hversu kröpp hún er og þá einkum sunnan og austan lægðarmiðjunnar.
Gert er ráð fyrir að í kvöld verði dimm hríð á fjallvegum Austfjarða, en krapi í byggð. Gera má ráð fyrir snörpum vindhviðum, allt að 30-40 metrum á sekúndu frá um kl. 19 til 20 sunnan undir Vatnajökli og áfram austur fyrir Hornafjörð í Berufjörð. Veðrið gengur hratt yfir og tekur að lægja upp úr miðnætti.