Ein ummæli í fréttinni ómerkt

Svavar Halldórsson, Þóra Arnórsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir í héraðsdómi.
Svavar Halldórsson, Þóra Arnórsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir í héraðsdómi.

Ein ummæli í frétt Svavars Halldórssonar, fréttamanns á RÚV, um Pálma Haraldsson, kenndan við Fons, voru dæmd ómerkt í Hæstarétti í dag. Önnur ummæli standa. Svavari var gert að greiða Pálma 200 kr. þúsund í miskabætur, en Pálmi var dæmdur til að greiða tveimur öðrum sem voru ákærðir samtals 600 þúsund í málskostnað.

Pálmi kærði Svavar fyrir frétt sem hann skrifaði og var flutt í aðalfréttatíma RÚV í mars í fyrra. Hann kærði einnig Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur, sem las fréttina og Pál Magnússon útvarpsstjóra. Þau tvö voru sýknuð í héraðsdómi.

Hæstiréttur taldi að þegar ummæli þar sem segir „en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“ væru virt í samhengi við önnur ummæli í fréttinni yrðu þau ekki skilin á annan veg en þann að með þeim væri verið að bera Pálma á brýn refsiverða háttsemi sem félli undir ákvæði almennra hegningarlaga. Svavar hefði ekki sýnt fram á að þetta ætti við rök að styðjast og við vinnslu fréttarinnar hefði hann ekki leitað eftir upplýsingum frá Pálma um efni hennar.

Hæstiréttur dæmdi þessi ummæli ómerkt, en gerði ekki athugasemdir við önnur ummæli sem Pálmi kærði í fréttinni.

Svavar var gert að greiða Pálma 200.000 krónur. Pálma var hins vegar gert að greiða Maríu Sigrúnu og Páli hvoru um sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti féll málskostnaður niður á báðum dómstigum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka