„Jú, jú, mér er létt. Það er ágætt að vera búinn að fá tilkynningu um að maður sé ekki búinn að tapa aleigunni,“ segir Guðmundur Víkingsson, bóndi á Garðshorni á Þelamörk, en hann er í hópi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Norðlendinga sem þarf ekki að greiða lán sem tekin voru til kaupa á stofnfé.
Guðmundur var að gefa kindunum þegar mbl.is ræddi við hann, en hann hefur stundað búskap í 40 ár og var farinn að huga að því að draga saman seglin. „Við ákváðum þegar þetta mál kom upp að sjá aðeins til og halda áfram búskap. Það var þá öruggt að maður hefði eitthvað að borða ef illa færi,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur og kona hans tóku bæði lán til að auka stofnfé í sparisjóðsins í samræmi við ráðgjöf þar um. Hann sagðist telja að lánin væru komin upp í 70-80 milljónir króna með vöxtum. Hann sagði að hann og allir sem hann vissi um hefðu tekið lánin í eigin nafni en ekki í nafni eignarhaldsfélaga.
Um fjögur ár eru síðan lánin voru tekin og málaferlin hafa tekið um tvö ár. Guðmundur sagði gott að niðurstaða væri fengin. Hann sagði sérstakt að Hæstiréttur hefði kveðið upp dómana sama dag og Íslandsbanki tilkynnti að hann hefði keypt Byr á 6,6 milljarða króna. Á sínum tíma hefði stofnfé í Byr verið metið yfir 30 milljarða og verðmætið verið talið enn meira.