Sjö milljónir króna söfnuðust þegar fermingarbörn um land allt gengu í hús aðra viku í nóvember með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar.
Fram kemur í tilkynningu að undanfari þess hafi verið fræðsla til um 2.700 fermingarbarna um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni.
„66 prestaköll tóku þátt. Enn eiga þónokkrir eftir að telja og leggja inn þannig að upphæðin á eftir að hækka og nálgast upphæðina sem safnaðist í fyrra, en þá söfnuðust átta milljónir króna. Þetta var í þrettánda sinn sem söfnunin fer fram.
Hjálparstarf kirkjunnar þakkar öllum sem gáfu, fermingarbörnum fyrir dugnað og prestum og kirkjustarfsmönnum samstarfið,“ segir í tilkynningu.