Framlög langt umfram heimildir

Endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hafa numið um 2,2 …
Endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hafa numið um 2,2 milljörðum króna frá árinu 2000. mbl.is/Golli

Horfur eru á að skuldbindingar ríkissjóðs vegna framleiðslustyrkja í kvikmyndaiðnaði í ár verði um 700 milljónir króna eða nálægt því að vera 450% hærri en fjárveiting fjárlaga ársins heimilar. Ekki hefur verið sótt um heimild í fjáraukalögum vegna þessara útgjalda.

Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, en frumvarpið felur í sér að þessar tímabundnu greiðslur, sem hófust árið 2000, haldi áfram.

Endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hafa numið um 2,2 milljörðum króna frá árinu 2000 á verðlagi ársins 2011. Fyrstu árin eftir að lögin voru sett fóru endurgreiðslur til kvikmyndagerðar hægar af stað en reiknað hafði verið með í fjárheimildum fjárlaga. Þannig mynduðust afgangsheimildir, auk þess sem veittar voru fjórar aukafjárveitingar á tímabilinu, samtals 446 milljónir kr., sem smám saman var ráðstafað eftir því sem leið á tímabilið. Voru úthlutanir lengst af innan uppsafnaðra fjárheimilda.

Í lögunum er gert ráð fyrir að fjárhæð endurgreiðslna sé háð fjárveitingu og er búið þannig um hnútana að ráðherra er heimilt að fresta greiðslum vegna samþykktra umsókna umfram fjárheimildir til næsta fjárlagaárs. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir að það liggi hins vegar fyrir að á árinu 2011 hafi iðnaðarráðuneytið greitt út framleiðslustyrki „sem eru mjög verulega umfram fjárheimildir. Uppsöfnuð staða fjárheimilda fyrir árið 2011 er 197 m.kr. en útgreiðslur eftir þriðja ársfjórðung voru um 320 m.kr. Þessar greiðslur hafa því ekki verið samkvæmt fjárheimildum og samræmast ekki ákvæði laganna um að fresta megi greiðslum umfram veittar fjárheimildir til næsta fjárlagaárs. Þá liggur fyrir hjá iðnaðarráðneytinu að þegar hafa verið gefin vilyrði vegna kvikmyndaverkefna sem lokið hefur verið við framleiðslu á, eða falla væntanlega til á þessu ári, sem fela í sér skuldbindingar sem talið er að gætu legið nærri 400 m.kr. Þannig eru horfur á að skuldbindingar ríkissjóðs vegna framleiðslustyrkja í kvikmyndaiðnaði árið 2011 stefni í að verða um 700 m.kr. eða nálægt því að vera 450% hærri en fjárveiting fjárlaga ársins. Því til viðbótar eru önnur verkefni sem eru í undirbúningi og gætu einnig falið í sér frekari skuldbindingar. Þótt um sé að ræða heimildarákvæði til greiðslna hefur iðnaðarráðherra tæplega miklar málefnalegar forsendur til að koma í veg fyrir þessar skuldbindingar að öðru leyti en að fresta útgreiðslum milli ára. Iðnaðarráðuneytið lagði ekki fram tillögur eða áætlanir vegna þessa við undirbúning frumvarps til fjáraukalaga ársins 2011 eða frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert