Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 21 árs gamlan karlmann í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að kasta stóru bjórglasi í andlit annars manns.
Þetta gerðist í mars í fyrra inni á veitingastað í Reykjavík. Sá sem varð fyrir bjórglasinu skarst mikið í andliti og voru skurðirnir saumaðir með 63 sporum. Hann fékk einnig sár á hönd.
Sá sem kastaði glasinu játaði sök. Hann var dæmdur til að greiða hinum manninum 300 þúsund krónur í bætur auk sakarkostnaðar.