Allir fulltrúar í utanríkismálanefnd Alþingis nema fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að tillaga um að Ísland viðurkenni sjálfstæði Palestínu verði samþykkt.
Tillagan var lögð fram af utanríkisráðherra og henni síðan vísað til utanríkismálanefndar. Meirihluti nefndarinnar hefur lagt fram breytingartillögu þar sem skorað er á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum.
Tillagan lítur svona út eftir gerðar hafa verið breytingar á henni: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skorar Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis.
Alþingi áréttar að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnir jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
Alþingi krefst þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.“
Einn af þeim þingmönnum sem stóðu að afgreiðslunni í utanríkismálanefnd er varaþingmaður Samfylkingarinnar Amal Tamimi, sem er frá Palestínu.