Stjórn Landssambands heilbrigðisstofnana vekur athygli á mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann vegna sjúkraflugs og bráðaþjónustu við landsbyggðina. Gæta verður þess þegar nýr Landspítali er byggður að þessi nánu tengsl verði ekki rofin.
Hverfi Reykjavíkurflugvöllur veldur það mikilli afturför í bráðaþjónustu við þá landsmenn sem þurfa að komast til Landspítalans með sjúkraflugi, að því er segir í ályktun sem stjórnin samþykkti á fundi sínum. Fundurinn var haldinn á Akureyri í síðustu viku.
Fram kemur í greinargerð að fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu sé Reykjavíkurflugvöllur órjúfanlega tengdur Landspítalanum. Það gangi ekki að á sama tíma og byggður sé fullkominn nútímaspítali fyrir alla landsmenn verði brugðið fæti fyrir sjúkraflugið með því að leggja flugvöll þess niður og færa þá bráðaþjónustu aftur um áratugi.