Þurfa ekki að greiða fyrir stofnfjárbréf

Hæstiréttur hefur sýknað tvo stofnfjáreigendur í Sparisjóði Norðlendinga í innheimtumálum sem Íslandsbanki höfðaði. Sparisjóðurinn sameinaðist Byr sparisjóði árið 2008 og stofnféð varð síðan verðlaust þegar fjármálaeftirlitið yfirtók Byr á síðasta ári.

Þá hefur Hæstiréttur einnig sýknað stofnfjáreiganda í Byr af kröfu Íslandsbanka vegna hlutafjáraukningar í Byr.  Í öllum málunum staðfestir Hæstiréttur dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, sem taldi, að fólkið hefði samþykkt lántökuna vegna ónákvæmrar upplýsingagjafar af hálfu Glitnis, sem sá um framkvæmd stofnfjáraukningarinnar, á þeirri röngu forsendu að áhætta þeirra takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf.

Hæstiréttur dæmdi hins vegar Íslandsbanka í vil í fjórða málinu og staðfesti þar einnig niðurstöðu héraðsdóms. Þar var stofnfjáreiganda í Byr gert að greiða Íslandsbanka tæplega 3 milljónir króna lán, sem veitt var vegna stofnfjáraukningar.

Annar stofnfjáreigendanna í Sparisjóði Norðurlands er sauðfjárbóndi í Hörgárbyggð en hinn er sölumaður á Akureyri. Bankinn krafðist þess að þeir greiddu hvor um sig 35 milljóna króna skuld, sem þeir stofnuðu til við stofnfjáraukninguna í Sparisjóði Norðlendinga árið 2007. Krafan á hendur stofnfjáreigandanum í Byr nam 20 milljónum króna. Um er að ræða tæplega áttræðan ellilífeyrisþega.

Í niðurstöðum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir að Glitnir hafi átt frumkvæði að hinni umfangsmiklu stofnfjáraukningu hjá Sparisjóði Norðlendinga sem kom til út af fyrirhugaðri sameiningu við Byr sparisjóð en ljóst sé að ætlunin var að hlutafjárvæða hann.

.„Ljóst er að þessum áformum var hrint í framkvæmd með því að margfalda stofnfé í Byr sparisjóði og Sparisjóði Norðlendinga í desember 2007. Hefðu þessi áform eflaust getað haft í för með sér töluverðan hagnað fyrir stofnfjáreigendur ef forsendur um hagfelldan rekstur sparisjóðanna og ríflegar arðgreiðslur hefðu staðist. Þau kölluðu hins vegar einnig á umfangsmikla skuldsetningu af hálfu stefnda til að fjármagna kaupin á stofnfénu og því mikilvægt að honum væri gerð skýr grein fyrir þeirri áhættu sem í því fælist. Frumkvæði Glitnis banka sem hér er lýst undirstrikar að mati dómsins enn frekar ábyrgð bankans á því að gera stefnda grein fyrir þessari áhættu. Forsendur þessara áforma brugðust hins vegar með öllu við hrun fjármálakerfisins hér á landi haustið 2008 en óumdeilt er að stofnfjárbréfin eru nú verðlaus. Ef fallist yrði á dómkröfur stefnanda verður ekki betur séð en að stefndi myndi bera allt tjónið af því," segir í niðurstöðum dómanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka